Viðskipti innlent

Glitnir færir sig til Finnlands

Glitnir kaupir meirihluta í FIM Group Í samræmi við yfirlýst markmið bankans um ytri vöxt.
Glitnir kaupir meirihluta í FIM Group Í samræmi við yfirlýst markmið bankans um ytri vöxt.

Glitnir hefur eignast 68,1 prósent hlutafjár í finnska eignastýringarfyrirtækinu FIM Group og vill kaupa allt útistandandi hlutafé. Kaupverðið nemur 341 milljón evra, um 30 milljörðum króna, sem greiðist annars vegar með reiðufé og hins vegar með nýjum bréfum í Glitni.

Glitnir greiðir átta evrur fyrir hvern hlut sem svarar til 30 prósenta yfirverðs miðað við lokagengi FIM í Kauphöllinni í Helsinki fyrir síðustu helgi.

Þessi kaup Glitnis koma ekki á óvart, enda hafa það verið yfirlýst markmið stjórnenda bankans að kaupa þóknunartengda starfsemi á Norðurlöndum. Sameiginlega eru Glitnir og FIM þriðji stærsti aðilinn á norrænum verðbréfamarkaði talið í veltu. Markaðshlutdeild Glitnis fer úr 4,9 prósentum í 5,6 prósent,

Gangi kaupin eftir, sem er háð samþykki yfirvalda í Finnlandi og á Íslandi, mun Glitnir stýra eignum fyrir 757 milljarða króna. Eignir sjóða FIM Group nema um þremur milljörðum evra (267 milljörðum króna) og rekur félagið 31 verðbréfasjóð. Á snærum þess starfa 284 starfsmenn. Skrifstofur félagsins eru tíu á stöðum í Finnlandi en auk þess rekur það útibú í Stokkhólmi og Moskvu. Hagnaður var 1,1 milljarður króna fyrir skatta á fyrstu níu mánuðum ársins í fyrra.

Stefnt er að frekari vexti FIM erlendis á sviði sjóðastýringar, verðbréfamiðlunar og fyrirtækjaráðgjafar, jafnt fyrir fagfjárfesta og einstaklinga.

Matsfyrirtækið Fitch staðfesti óbreyttar lánshæfiseinkunnir Glitnis eftir að greint var frá kaupunum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×