Viðskipti innlent

Glitnir gefur aftur út bréf í Evrópu

Glitnir hefur gengið frá samningum um útgáfu skuldabréfa að upphæð 500 milljónir evra, sem jafngildir tæplega 45 milljörðum íslenskra króna, á föstum vöxtum sem nema 4,375 prósentum, með gjalddaga árið 2010.

Fram kemur í tilkynningu bankans til Kauphallar að þetta sé fyrsta opinbera skuldabréfaútgáfa Glitnis í evrum frá því í júní 2005. Íslensku bankarnir hafa til þessa að mestu látið vera að sækja fjármagn á Evrópumarkað með þessum hætti eftir þær sviptingar sem urðu á mörkuðum fyrri hluta síðasta árs, utan tæplega 12 milljarða króna útgáfu Kaupþings í Sviss fyrr í þessum mánuði.

Umsjón með skuldabréfaútgáfu Glitnis var að þessu sinni í höndum ABN Amro og Deutsche Bank, en nær tvöföld umframeftirspurn var eftir bréfum í útboðinu. „Í viðtökunum sem þetta skuldabréfaútboð fær felst mikil hvatning,“ segir Tómas Kristjánsson, framkvæmdastjóri fjármálasviðs Glitnis og telur umræðu um íslenskt efnahagslíf í meira jafnvægi en áður.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×