Viðskipti innlent

Kaupþingi spáð mestum hagnaði félaga árið 2007

Eggert Þór Aðalsteinsson skrifar

Greiningardeildir viðskiptabankanna reikna með að samanlagður hagnaður tuttugu kauphallarfélaga verði á bilinu 137-225 milljarðar króna árið 2007. Þessi mikli munur skýrist aðallega af því að Greiningardeild Kaupþings, sem er með lægstu spána, áætlar hvorki fyrir um eigin afkomu né hagnað hjá Existu, en bæði Glitnir og Landsbankinn, sem spá heldur ekki fyrir eigin afkomu, búast við að Kaupþing og Exista hagnist mest á yfirstandandi ári.

Á árinu 2006 reikna greiningardeildir bankanna með að samanlagður hagnaður fyrirtækja hafi numið 160-254 milljörðum króna.

Sérfræðingar bankanna eru sammála um að árið 2007 muni koma til með að einkennast af frekari útrás, jafnt hjá fjármálafyrirtækjum sem og rekstrarfélögum. Þrátt fyrir að allt stefni í gott ár hvað afkomuna snertir eru allar greiningardeildirnar samhljóða um að heildarafkoman dragist saman á milli ára, eins og fyrr var getið. Þetta skýrist fyrst og fremst af minnkandi gengis- og söluhagnaði fjármála- og fjárfestingarfélaga. Hins vegar eru markaðsaðilar bjartsýnir um verulegan rekstrarbata hjá framleiðslufyrirtækjunum svokölluðu.

Kaupþingi er spáð um 59,7 milljarða meðaltalshagnaði en bankinn skilaði mestum hagnaði fyrirtækja í Kauphöll árið 2005 og að öllum líkindum líka árið 2006. Þar á eftir kemur Exista með tæplega 41,8 milljarða króna meðaltalshagnað. Glitnir mun sitja í þriðja sæti rætist spárnar með um 28,3 milljarða hagnað en þar á eftir koma Landsbankinn (26,4 milljarðar) og FL Group (24,8 milljarðar). Straumur skilar rétt tæpum tuttugu milljörðum króna í hús, Actavis 13,6 milljörðum og Bakkavör Group yfir 8,2 milljörðum króna.

Miðað við meðaltalsspár mun ekkert félag verða rekið með tapi á árinu 2007. Minnsti hagnaðurinn fellur í skaut 365 hf., 74 milljónir króna miðað við meðaltal tveggja spáa.

Þegar allar meðaltalsspár eru lagðar saman fæst út að samanlagður hagnaður félaganna verður um 244 milljarðar króna árið 2007.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×