Viðskipti innlent

Evrubókhald hluti áhættustýringar

Möguleg tilfærsla bankanna á eigin fé sínu úr krónum í evrur er hluti af áhættustýringu þeirra og í raun óviðkomandi umræðu um framtíð krónunnar sem gjaldmiðils þjóðarinnar. Þetta segir Björn Rúnar Guðmundsson, sérfræðingur greiningardeildar Landsbankans, og kveður bankana hljóta að stíga þetta skref fljótlega.

Björn Rúnar segir þó ljóst að lengra sé í breytinguna en ætlað hafi verið um áramótin þegar talið var að bankarnir myndu strax fylgja í kjölfar Straums-Burðaráss. „Kaupþing er hins vegar komið langlengst í þessu, með stærstan hluta af sínum tekjum í erlendri mynt og er klárlega næsti kandídat. Landsbankinn og Glitnir eru ekki komnir jafnlangt og málið ekki jafnaðkallandi. Þá hafa komið yfirlýsingar frá Kaupþingi um að þeir hafi safnað gjaldeyri.“

Björn Rúnar segir einnig ljóst að bankarnir hafi engan hag af því að breyta eigin fé sínu í ósátt við Seðlabanka eða stjórnvöld. „Bankarnir eru jú allir undir eftirliti og fjármálastöðugleiki er stór þáttur af þeirra umhverfi.“ Þá sé ekki eintómur ávinningur því fylgjandi fyrir fjármálastofnanir að færa bókhald sitt í aðra mynt. „Stóri mínusinn við þetta fyrir bankana er náttúrulega að missa hugsanlega stuðning Seðlabankans. Vega þarf og meta gallana á móti kostunum,“ segir Björn Rúnar og spáir því að stjórnendur bankanna muni tjá sig um stefnuna í þessum málum á aðalfundum þeirra í næsta og þarnæsta mánuði. „Hluthafar vilja væntanlega fá að vita hvert stefnir.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×