Viðskipti innlent

LSE styrkir varnirnar gegn Nasdaq

Breska kauphöllin í Lundúnum (LSE) býst við 180 prósenta aukningu hlutabréfaveltu á markaðnum allt fram til loka næsta árs. Enn fremur ætlar kauphöllin að verja sem nemur 250 milljónum punda, sem svarar til 34,5 milljarða íslenskra króna, til kaupa á eigin bréfum með það fyrir augum að hindra hugsanlega yfirtöku bandaríska hlutabréfamarkaðarins Nasdaq á kauphöllinni.

Þetta kemur fram í tilkynningu sem stjórn kauphallarinnar sendi frá sér í síðustu viku. Markaðurinn hefur gripið til ýmissa ráðstafana til að koma í veg fyrir yfirtökuna, meðal annars með því að birta afkomutölur síðasta árs fyrr en áætlað var.

Nasdaq gerði yfirtökutilboð í bresku kauphöllina í tvígang í fyrra en stjórn LSE felldi þau jafnharðan á þeim forsendum að það endurspeglaði ekki framtíðarhorfur markaðarins. Í kjölfarið hóf Nasdaq óvinveitt yfirtökuferli á kauphöllinni og fer nú með 28,75 prósent bréfa í henni.

Bandaríski markaðurinn hefur gert hluthöfum tilboð upp á 2,7 milljarða punda, sem samsvarar um 370 milljörðum króna, í bréf þeirra og stendur það fram á föstudag. Ásókn í bréf LSE á síðastliðnum tveimur árum hefur valdið því að gengi þeirra hefur þrefaldast á tímabilinu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×