Viðskipti innlent

OR fær lánshæfiseinkunn frá Moody"s

Miklar framkvæmdir eru fyrirhugaðar á vegum OR.
Miklar framkvæmdir eru fyrirhugaðar á vegum OR.

Orkuveita Reykjavíkur hefur fengið lánshæfiseinkunnina Aa2 frá matsfyrirtækinu Moody"s og eru framtíðarhorfur fyrirtækisins sagðar stöðugar.

Fram kemur að lítil eða óveruleg áhætta er í rekstri OR og vægi tekna félagsins af samkeppnisrekstri muni aukast sem dragi úr áhættu.

„Orkuveitan er að búa sig undir framtíðina. Það eru mikar fjárfestingar hjá okkur á næstu sex til sjö árum og fyrirtækið vill hafa alla möguleika á fjármögnun. Við teljum gott að gera það núna þannig að við höfum rúman tíma fyrir okkur,“ segir Guðmundur Þóroddsson, forstjóri OR, en unnið hefur verið að matinu undanfarna tíu mánuði. Hann bendir á að þetta gefi fyrirtækinu færi á að fara út á alþjóðlegan skuldabréfamarkað til að leita bestu lánskjara.

Moody"s telur jafnframt að OR sé sterkt fyrirtæki og ekki dragi úr styrk þess að Reykjavíkurborg skuli vera stærsti eigandinn.

Einkunnin er sú þriðja besta sem íslenskt fyrirtæki fær. Fyrir ofan OR eru Íbúðalánasjóður og Landsvirkjun, sem njóta ríkis-ábyrgðar, en viðskiptabankarnir þrír og Straumur-Burðarás bera lægri einkunnir en OR.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×