Viðskipti erlent

100 dala tölvan tilbúin í sumar

Nicholas Negroponte höfundur 100-dala tölvunnar kynnir hana á fundi Alþjóða efnahagsstofnuninni (WEF) í Davos í Sviss fyrir ári.
Nicholas Negroponte höfundur 100-dala tölvunnar kynnir hana á fundi Alþjóða efnahagsstofnuninni (WEF) í Davos í Sviss fyrir ári. MYND/AFP

Jón Aðalsteinn Bergsveinsson

skrifar

Vonir standa til að hundrað-dalatölvan svokallaða, sem reyndar heitir XO, verði tilbúin og komin í almenna dreifingu um allan heim í júlí í sumar. Eins og nafnið gefur til kynna mun tölvan kosta 100 Bandaríkjadali eða um 7.000 íslenskar krónur en hún er ætluð fátækum börnum, ekki hvað síst í þróunarlöndunum, sem fram til þessa hafa staðið utan við tæknivæðinguna.

Fyrstu tölvurnar, sem þróaðar hafa verið í bandaríska tækniháskólanum MIT síðastliðin tvö ár, fara til Brasilíu, Argentínu, Úrúgvæ, Nígeríu, Líbýu, Pakistan og til Taílands.

Í tölvunni er 366 MHz örgjörvi frá AMD og þráðlaus nettenging. Hún hefur engan harðan disk en 512 MB vinnsluminni og tvö USB-port, sem gerir það að verkum að hægt er að tengja jaðartæki við tölvuna. Þá keyrir tölvan á einfölduðu stýrikerfi frá Linux en ræður við stýrikerfi frá Microsoft og Apple auk þess sem henni fylgja ritvinnsluhugbúnaður, vafri og RSS-fréttaþjónusta svo notendur geti fylgst með gangi heimsmálanna.

Nicholas Negroponte, sem unnið hefur að þróun tölvunnar hjá MIT, vísar því á bug að hundrað-dala tölvan sé strípuð og einfölduð útgáfa af hefðbundnum tölvum. Hann geti vel hugsað sér að leggja eigin tölvu og nota XO-tölvuna. „Hún verður mun betri á margan hátt,“ segir hann í samtali við fréttastofuna Associated Press.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×