Viðskipti innlent

Frásagnir af andláti krónunnar eru ýktar

Ásgeir Jónsson forstöðumaður greiningardeildar Kaupþings
Ásgeir Jónsson forstöðumaður greiningardeildar Kaupþings

Óli Kristján Ármannsson

skrifar

„Frásagnir af andláti krónunnar eru dálítið ýktar,“ segir Ásgeir Jónsson, forstöðumaður greiningardeildar Kaupþings og telur að ef til vill hafi verið ofmetin í umræðunni áhrifin af því ef fjármálafyrirtæki færðu eigið fé sitt yfir í erlenda mynt. Taki hins vegar mörg fyrirtæki upp á því að gera upp í evrum segir hann að hlutabréfamarkður hér breytist og færist undan áhrifavaldi Seðlabankans.

„Það eitt að innlánsstofnun færði eigið fé sitt í erlenda mynt hefur ekki úrslitaáhrif á miðlun peningastefnu Seðlabankans,“ segir Ásgeir og bendir á að ef erlendur banki myndi kaupa íslenskan, eða hefja starfsemi hér, væri hann með erlent eigið fé. „Eftir stendur að útlán og innlán einstaklinga og fyrirtækja í krónum verða óbreytt.

Vaxtaleiðnin í gegnum bankakerfið, frá stýrivaxtaákvörðun Seðlabankans yfir í ákvörðun um útlánavexti bankanna verður sú hin sama.“ Að sumu leyti segir Ásgeir gæti jafnvel peningamálastefna Seðlabankans virkað betur ef bankarnir væru með erlent eigið fé vegna samspils gengishreyfinga og Basel-reglna um eiginfjárhlutfall banka.

En það þýðir að í hvert sinn sem krónan hækkar, lækkar eiginfjárhlutfall bankastofnana mælt í innlendri mynt og kostnaðurinn við innlend útlán eykst á eiginfjárgrunni. Við þetta mun eigið fé í erlendri mynt vinna með peningamálastefnu Seðlabankans og mögulega auka virkni peningamálaðgerða. Þetta er algerlega öfugt við það sem nú er, þar eigið féð er í innlendri mynt en stór hluti efnahagsreiknings í erlendri. Þannig til að mynda jók gengishækkun krónunnar 2004-2005 eiginfjárhlutfall íslenskra banka og gerði innlend útlán ódýrari.

Ef hins vegar mörg íslensk fyrirtæki færu að færa eigið fé sitt í evrur eða aðra erlenda gjaldmiðla myndi það leiða til þess að hlutabréfamarkaðurinn lenti utan við áhrifasvið peningamálastefnu Seðlabankans að einhverju leyti. Þá væri hægt að kaupa hlutabréf á móti láni í evrum og krónan stæði þar alfarið fyrir utan. Ásgeir segir svo álitamál hversu mikil áhrif peningamálastefna Seðlabankans hafi á hlutabréfamarkað, enda hafi hann hækkað í gegnum allt stýrivaxtahækkunarferli bankans.

„Hlutabréfamarkaður virðist hins vegar gríðarlega viðkvæmur fyrir gengi krónunnar. Hann yrði því ef til vill ekki jafnkvikur ef hann væri ekki undir krónunni.“

Ásgeir segir ljóst að krónan sé orðin mjög óvinsæl en er afar vantrúaður á að hér verði tekin upp evra með einhliða aðgerð vegna þess hversu mikill kostnaður yrði því samfara. „Ef við ætluðum að taka upp evruna einhliða yrði íslenska ríkið að taka erlent lán fyrir að minnsta kosti nokkur hundruð milljarða króna, til þess að skipta út peningamagninu sem er í umferð sem væri fremur dýr aðgerð auk þess sem erfitt væri að vera án lánveitenda til þrautavara.

Það er efalaust að gengisóstöðugleiki krónunnar er að verða mjög þung byrði á íslensku atvinnulífi sem virðist ætla að þyngjast eftir því sem útrásinni vindur áfram. Hins vegar hefur krónan að einhverju leyti verið gerð að blóraböggli því óstöðugleiki hennar er aðeins endurvarpið af þeirri þenslu sem ríkir í atvinnulífinu.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×