Lífið

Varði vekur athygli

Hallvarður Ásgeirsson. Varði hefur gefið út sína fyrstu plötu sem nefnist Lífsblómið.
Hallvarður Ásgeirsson. Varði hefur gefið út sína fyrstu plötu sem nefnist Lífsblómið. MYND/Rósa

Tónlistarmaðurinn Hallvarður Ásgeirsson, eða Varði eins og hann er kallaður, hefur gefið út sína fyrstu plötu sem nefnist Lífsblómið.

Á plötunni blandar Varði saman sígildri tónlist og svokölluðu „doom metali“ eða myrkrametali.

Varði gerði nýverið samning við breska plötufyrirtækið Paradigms Recordings sem hann komst í kynni við í gegnum heimasíðuna MySpace og hefur platan fengið góðar viðtökur.

Heillandi og minimalísktPlatan var meðal annars valin ein af fimmtán bestu plötum ársins af veftímaritinu dustedmagazine.com. Þar segir að hún sé ekki eins mikið eftir bókinni og búast mætti við: „Lífsblómið er heillandi safn nútímalegrar, minimalískrar tónlistar. Sterkum áhrifum er blandað saman við framúrstefnulegar lagasmíðar á meðan einnig er leitað aftur til Vínarskólans.“ Engar heimildarmyndirVarði vakti á sínum tíma athygli fyrir heimildarmyndina Varði Goes Europe í leikstjórn Gríms Hákonarsonar þar sem hann ferðaðist sem götuspilari um Evrópu og spilaði á rafmagnsgítar sinn fyrir pening. Hann segist hafa ákveðið að taka sér frí frá öllu slíku um óákveðinn tíma. „Þetta var skemmtilegt verkefni en ég tók þetta ekki það alvarlega,“ segir hann og kímir. „Það var góð reynsla að spila á götunni og að vinna í öðrum geirum. Ég held að það sé eitthvað sem allir þurfa að prófa.“ Á leið til New York

Varði, sem hefur spilað með Stórsveit Nix Noltes og stendur jafnframt á bak við plötufyrirtækið Andrými, útskrifaðist síðasta sumar úr Listaháskóla Íslands þar sem hann lagði stund á tónsmíðar. Hann segir að lögin á nýju plötunni hafi komið af sjálfu sér. „Ég kunni á rafmagnsgítar áður en ég fór í skólann. Ég fór í tónsmíðar í gegnum raftónlist. Þetta er svona blanda af þyngra rokki og ambíent pælingum,“ segir hann.

Varði er um þessar mundir að kenna á gítar í Keflavík og stefnir að því að fara til New York í haust til að læra meira í kennslufræði. Útgáfutónleikar vegna plötunnar, sem fæst í 12 Tónum og Hljómalind, eru fyrirhugaðir síðar í þessum mánuði.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.