Viðskipti erlent

Skrá eignir á markað

Virgin-samstæðan ætlar að skrá nokkrar af eignum félagsins á markað á næstunni.
Virgin-samstæðan ætlar að skrá nokkrar af eignum félagsins á markað á næstunni.

Breska samstæðan Virgin Group ætlar að breyta um stefnu og skrá nokkrar af eignum samstæðunnar á markað á næstunni. Stephen Murphy, forstjóri samstæðunnar, segir í viðtali við breska blaðið The Times að Virgin Group líti nú á sig sem fjárfestingafélag á borð við Blackstone Group.

Skráning farsímahluta Virgin í Bandaríkjunum er langt komin en líklegt þykir að skráning líkamsræktarkeðjunnar Virgin Active og fleiri fyrirtækja verði næst á dagskrá, svo sem Virgin Atlantic. Virgin Group mun halda eftir stórum hlutum og gera engar breytingar á stjórnendateyminu. Undir fyrirtækjahatti samstæðunnar eru tugir fyrirtækja, þar á meðal fjöldi flugfélaga og hljómplötuútgáfa.

Virgin Group hefur áður komið við sögu hlutabréfamarkaðar en félagið var skráð á markað árið 1986. Richard Branson, stofnandi samstæðunnar og stjórnarformaður, var hins vegar óánægður með tauminn sem skráningin batt hann í og keypti alla hluti félagsins aftur tveimur árum síðar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×