Viðskipti innlent

KB banki selur Exista

Hreiðar Már Sigurðsson forstjóri KB banka.
KB banki hefur selt 6,1 prósent hlut í Exista til níu lífeyrissjóða. Kaupverð nemur 17,5 milljörðum króna.
Hreiðar Már Sigurðsson forstjóri KB banka. KB banki hefur selt 6,1 prósent hlut í Exista til níu lífeyrissjóða. Kaupverð nemur 17,5 milljörðum króna.

KB banki hefur selt 6,1 prósent hlutafjár í Exista til níu íslenskra lífeyrissjóða. Ef miðað er við síðustu viðskipti Exista nema kaupin 17,5 milljörðum króna. Eftir viðskiptin á KB banki 14,8 prósent hlutafjár í Exista.

Hreiðar Már Sigurðsson, forstjóri KB banka, segist afar ánægður með viðskiptin og er sannfærður um að þær breytingar sem orðið hafa á Exista undanfarin misseri geri félagið að áhugaverðum fjárfestingarkosti "Þegar Exista verður skráð á markað verður það með næstmest eigið fé allra íslenskra fyrirtækja. Þetta er öflugt félag sem á marga möguleika."

Hreiðar segir ljóst að með þessum viðskiptum svari KB banki gagnrýni um krosseignarhald frá Morgan Stanley og fleiri erlendum aðilum. Tíminn verði þó að leiða í ljós hvort viðskiptin komi bankanum til góða á erlendum mörkuðum "Það voru margir sem efuðust um að þetta væri hægt í þessum markaðsaðstæðum. Við erum að sýna og sanna mat okkar á aðstæðum var rétt."

Í tilkynningu frá KB banka til Kauphallarinnar kemur fram að bankinn innleysi 5,7 milljarða króna í hagnað af sölunni á þriðja ársfjórðungi.

Þá segir að stefnt sé að því að selja hluti í Exista til fagfjárfesta í tengslum við skráningu Exista í Kauphöll Íslands og að helmingi þeirra hluta sem voru í eigu bankans fyrir viðskiptin verði úthlutað til hluthafa í formi arðgreiðsla.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×