Jarðboranir hf., dótturfélag Atorku Group, hefur keypt allt hlutafé í verktakafyrirtækinu Sæþór ehf., ásamt tækjakosti og búnaði. Kaupverð nemur 130 milljónum króna.
Rekstur Sæþórs mun eftirleiðis heyra undir starfsemi Björgunar, dótturfélags Jarðborana. Verkefni Sæþórs eru einkum á sviði hafnardýpkunar en auk þess hefur fyrirtækið m.a. látið að sér kveða við hafnargerð, vega- og brúargerð, viðhaldsframkvæmdir á mannvirkjum og framkvæmdir fyrir orkuveitur.
Í tilkynningu um kaupin er haft eftir Bent S. Einarsson, forstjóra Jarðborana, að með kaupum á Sæþóri sé verið að framfylgja þeirri stefnu fyrirtækisins að eflast bæði að innri og ytri vexti. Séu kaupin rökrétt fjárfesting sem falli í senn vel að starfsemi Björgunar og samstæðu Jarðborana í heild.
Ekki er stefnt að neinum grundvallarbreytingum á starfsemi Sæþórs og telur Bent ótvíræðan styrk í því að núverandi starfsfólk verði áfram hjá fyrirtækinu.
Áætluð velta Sæþórs á árinu nemur um 240 milljónum króna og áætlað að rekstrarhagnaður fyrir afskriftir verði um 100 milljónir króna. Vaxtaberandi langtímaskuldir félagsins eru engar og nettó veltufjárliðir sömuleiðis engir.