Innlent

Vilja tryggja rekstur Konukots til 1. maí

MYND/Pjetur

Fjármagn til reksturs Konukots og auknar niðurgreiðslur til dagforeldra og sjálfstætt rekinna leikskóla eru meðal breytinga sem meirihluti borgarstjórnar leggur til á frumvarpi að fjárhagsáætlun borgarinnar sem tekið verður til seinni umræðu í dag.

Fram kemur í tilkynningu frá borginni að lagt sé til að fjárhagsáætlun velferðarsviðs hækki um 18 milljónir til þess að mæta kostnaði við rekstur Konukots eða sambærilegs úrræðis en rekstri þess var hætt um síðustu mánaðamót þegar tveggja ára samningur borgarinnar og Rauða krossins rann út.

Lagt er til að samið verði við Rauða krossinn um áframhaldandi rekstur Konukots til 1. maí á næsta ári og að tíminn fram að því verði notaður til að kanna hvernig borgin sinni rekstrinum á sem hagkvæmastan hátt.

Samkvæmt tillögum meirihlutans er einnig lagt til að greiðslur til dagforeldra hækki um 85,5 milljónir króna frá fjárhagsáætlun sem þýðir að meðaltalsgreiðsla til dagforedlra verður um 38 þúsund á mánuði. Þá er jafnframt lagt til að niðurgreiðsla til sjálfstætt rekinna leikskóla hækki þannig að framlag þeirra verði ekki minna en meðaltalskostnaður leikskóla sem borgin rekur.

Enn fremur hyggst meirihlutinn hækka fjárhagsáætlun Íþrótta- og tómstundasviðs um 200 milljónir. Þar af eru 180 milljónir vegna innleiðingar frístundakorta.

Tillögur meirihlutans má sjá í tilkynningu hér að neðan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×