Innlent

Eiginkona kínversks verkamanns sem slasaðist komin til landsins

MYND/Vilhelm

Eiginkona kínverska verkamannsins, sem slasaðist alvarlega við Kárahnjúkavirkjun fyrir rúmum hálfum mánuði, er komin hingað til lands til að fylgjast með manni sínum. Honum er enn haldið sofandi á gjörgæsludeild.

Maðurinn rann tugi metra niður hallann á stíflunni að kvöldi 25. nóvember uns hann hafnaði á steypustyrktarjárni. Að sögn talsmanns Impregilo skarst hann mikið víða á líkamanum og mörg rifbein brotnuðu með þeim afleiðingum að annað lungað féll saman. Hann missti mikið blóð og tók lækna langan tíma að búa hann undir sjúkraflug á Landspítalann,þar sem hann var þegar lagður inn á gjörgsæludeild.

Að sögn talsmanna Impregilo hefur hann gengist undir þrjár aðgerðir. Þegar ljóst var hversu alvarlega hann var slasaður var ákveðið að senda eftir eiginkonu hans hingað til lands. Það var erfiðleikum bundið þar sem heimaslóðir hjónanna eru í lélegu símasambandi en að sögn Impregilo tókst það ekki hvað síst fyrir góða milligöngu danska sendiráðsins í Kína.

Konan dvelur nú á gisitheimili í Reykjavík og er Kínverji sem talar talsvert í íslensku henni til halds og trausts. Að sögn læknis á gjörgæsludeild nú í morgun er manninum enn haldið sofandi enda mikið slasaður, en hann er ekki talinn í lífshættu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×