Innlent

Sigrún Björk tekur við bæjarstjóraembætti 9. janúar

Sigrún Björk Jakbobsdóttir, bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins á Akureyri, tekur við embætti bæjarstjóra í sveitarfélaginu þann 9. janúar af Kristjáni Þór Júlíussyni, á fyrsta fundi bæjarstjórnar eftir áramót. Þetta var tilkynnt á blaðamannafundi í Ráðhúsi Akureyrar laust fyrir klukkan ellefu.

Sem kunnugt er fór Kristján Þór með sigur af hólmi í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Norðausturkjördæmi um síðustu helgi og því má reikna með að hann taki sæti á þingi eftir þingkosningar sem fram fara í vor.

Sigrún Björk er fertug og ólst upp í Keflavík. Hún hefur setið í bæjarstjórn Akureyrar frá árinu 2002 og hefur gegnt starfi forseta bæjarstjórnar frá því í vor. Með breytingunum hefur hún stólaskipti við Kristján Þór sem verður forseti bæjarstjórnar eftir áramót. Kristján Þór sagði á blaðamannafundinum að hann útilokaði ekki að hann gæti gegnt stöðu forseta bæjarstjórnar Akureyrar samhliða þingstörfum.

Sigrún Björk sagði það mikinn sigur í jafnréttisbaráttunni að kona tæki nú við starfi bæjarstjóra á Akureyri og að hún væri stolt af því að vera fyrsta konan til að gegna starfinu. Það væri frétt í dag þegar kona tæki við bæjarstjórastarfi en vonandi þætti það ekki merkilegt innan tíðar með vaxandi jafnrétti kynjanna. Sigrún Björk boðaði jafnframt bleikari áherslur í stjórn bæjarins þegar hún settist í stól bæjarstjóra.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×