Innlent

Djúpboranir gætu skilað háhitaorku til rafmagnsframleiðslu eftir sex ár

Með djúpborun er vonast til að ná allt að fimmfalt meiri orku úr jarðhitasvæðum en nú er hægt. Stefnt er að því að fyrstu djúpholurnar verði farnar að skila raforku eftir sex til níu ár, að sögn Guðmundar Ómars Friðleifssonar jarðfræðings, verkefnisstjóra djúpborunarverkefnis. Tvær nýjar jarðvarmavirkjanir tóku til starfa hérlendis á árinu, á Reykjanesi og á Hellisheiði, en einnig hafa eldri jarðvarmavirkjanir verið stækkaðar, í Svartsengi, á Nesjavöllum og í Kröflu. Eigendur þessara virkjana, Orkuveita Reykjavíkur, Hitaveita Suðurnesja og Landsvirkjun, hófu ásamt Orkustofnum íslenska djúpborunarverkefnið en síðan hafa bæst í hópinn íslenskar og erlendar vísindastofnanir. Hefðbundnar borholur ná niður á um tveggja kílómetra dýpi en með djúpborunarverkefninu er ætlunin að bora mun dýpra eða niður á fimm kílómetra dýpi, langleiðina niður í bráðna kviku. Þannig á að ná meiri orku úr iðrum jarðar enda er ætlunin að bora niður 400 til 500 stiga hita.Fulltrúa Norsk Hydro lýstu því yfir fyrir helgi að þeir hefðu áhuga á þátttöku í djúpborunarverkefninu og álfyrirtækin Alcoa, Alcan og Century höfðu áður lýst sama áhuga. Guðmundur Ómar vill ekki ganga svo langt að segja að orkan sem fáist með djúpborun verði svo mikil að vatnsaflssvirkjanir verði óþarfar og varar við of mikilli bjartsýni.

Til stóð að hefja djúpboranir í þessum mánuði með dýpkun á eldri holu á Reykjanesi en þegar til átti að taka reyndist sú hola ekki nothæf. Virðist nú ljóst að rúmt ár muni líða þar til byrjað verði að bora.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×