Innlent

Íslendingarnir byrjaðir aftur

Forsíða Guardian í dag
Forsíða Guardian í dag

Breska blaðið Guardian segir frá endurnýjuðum þrótti íslenskra fjárfesta í bresku fjármálalífi eftir sex mánaða hvíld. Í grein blaðsins segir, að fjármálakrísan í vor, sem sumir fjármálaskýrendur töldu að hefði getað komið vestrænum fjármálamökuðum á kné, fái að líkindum endi í mjúkri lendingu, og þess vegna séu til dæmis Landsbankinn, Kaupþing og Eggert Magnússon komnir af stað með ný áform.

Blaðið nefnir tilkynningu Landsbankans um nýtt innlánsform á netinu, Icesave online, sem bjóði 5,2% vexti og segir að Kaupþing sé að leggja síðustu hönd á 817 milljóna punda yfirtökutilboð á Matalan fata- og lífsstílsverslanakeðjunni með fyrrum eiganda hennar, John Hargreaves. Þá segir Guardian líka frá því að forseti íslenska knattspyrnusambandsins, Eggert Magnússon, sé í East End hverfinu í London, að undirbúa tilboð í West Ham. Blaðið segir að á meðan allt þetta sé að gerast þá sé svo Jón Ásgeir, forstjóri Baugs, að kæra lögsókn íslenska ríkisins til Mannréttindadómstólsins í Strassburg.

Loks bendir Guardian á þá tilviljun að eigendur Baugs og Landsbankans, þeir Jón Ásgeir og Björgólfur Thor Björgólfsson, sitji einmitt ásamt Eggerti Magnússyni í stjórn Straums Burðaráss. En það sé ekkert endilega skrítið, því svona sé þetta á  Íslandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×