Innlent

SVÞ svara Guðmundi Ólafssyni prófessor

Samtök verslunar og þjónustu harma órökstuddar fullyrðingar Guðmundar Ólafssonar háskólaprófessors um matvöruverslunina vegna lækkunar matvælaverðs og eru þess fullviss að aðgerðir ríkisstjórnarinnar munu að fullu skila sér til neytenda.

Í tilkynningu sem Samtökin sendu frá sér í dag, segir að viðvarandi ótrú Guðmundar á verslunareigendum og fullyrðingar um að lækkun skatta og tolla skili sér ekki til neytenda í lægra vöruverði veki undrun allra þeirra sem þekkja til verslunar á Íslandi.

Þessum fullyrðingum hefur verið mótmælt af versluninni og undir það hafa vandaðir embættismenn tekið segja SVÞ og benda á skýrslu Hallgríms Snorrasonar hagstofustjóra og formanns nefndar forsætisráðherra um leiðir til að færa matvælaverð. Þar sé fjallað um ágæta reynslu af niðurfellingu á tollum grænmetis 2002 sem hafi lækkað mikið. Verð á öðru grænmeti og jafnvel ávöxtum hafi þá líka lækkað mikið vegna samkeppnisáhrifa.

SVÞ harma að prófessorinn skuli burðast með þá stórlega brengluðu mynd af þessum veruleika, sem einna helsti minnir á það þegar staðhæft er að flokkar fólks eða jafnvel heilar þjóðir séu steyptar í eitt mót. Slíkar alhæfingar eru hættulegar og ekki samboðnar virðingu og fræðimannsheiðri kennimanna.

SVÞ telja að verslun í landinu muni kappkosta að láta hverja þá breytingu sem gerð verður á álögðum gjöldum á matvæli endurspeglast í smásöluverði til neytenda. Yfirlýsingar þessa efnis hafa einnig verið gefnar út af forystumönnum stærstu verslunarfyrirtækjanna í smásölu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×