Erlent

Bush afléttir leyndinni

Bush Bandaríkjaforseti hefur aflétt leynd af skýrslu leyniþjónustunnar um alþjóðlega hryðjuverkastarfsemi en niðurstaða hennar er að íslamskir öfgahópar hafi eflst vegna Íraksstríðsins.

Þrátt fyrir þetta segir hann þá sem gagnrýna stríðsreksturinn hegða sér barnalega. Skýrslan um stöðu og horfur í hryðjuverkastarfsemi heimsins er runnin undan rifjum sextán leyniþjónustustofnana Bandaríkjanna en hluta hennar var lekið til dagblaðsins New York Times um helgina. Óhætt er að segja að niðurstöður hennar séu sláandi: Íraksstríðið hefur orðið vatn á myllu herskárra íslamista um heim allan og vargöldin í landinu hefur orðið til þess að þangað flykkjast öfgamenn alls staðar að úr heiminum. Átökin hafa auk þess orðið til að auka enn á andstöðu múslima við Bandaríkin og allt bendir til að hryðjuverkahópum fari fjölgandi og Bandaríkjunum stafi sífellt meiri hætta af þeim.

Tvenns konar ályktanir eru dregnar af þessari dökku mynd sem leyniþjónustan dregur upp. Þeir sem gagnrýnt hafa hernaðinn í Írak segja að skýrslan sýni hvílík reginmistök innrásin hafi verið. Stuðningsmenn Íraksstríðsins segja aftur á móti að takist hernum að vinna bug á öfgamönnum í Írak sé stórum áfanga í stríðinu gegn hryðjuverkum náð og því megi þar hvergi hvika í baráttunni. Í gærkvöld tilkynnti Bush Bandaríkjaforseti að leynd af hlutum skýrslunnar hefði verið aflétt til að almenningur gæti sjálfur metið efni hennar. Við það tækifæri gagnrýndi forsetinn lekann til fjölmiðla sem hann sagði til að hafa áhrif á úrslit þingkosninganna í nóvember en auk þess kallaði hann gagnrýnendur Íraksstríðsins barnalega. Demókratar hafa þegar krafist þess að skýrslan verði birt í heild sinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×