Erlent

Áfram verður réttað yfir Saddam

Saddam sleppur ekki úr réttarsalnum í bráð, hver réttarhöldin reka önnur.
Saddam sleppur ekki úr réttarsalnum í bráð, hver réttarhöldin reka önnur. MYND/AP

Saddam fær að sitja áfram undir réttarhöldum út af ódæðisverkum í forsetatíð hans. Hæstiréttur í Bagdad tilkynnti í dag að réttarhöld yfir Saddam Hussein vegna helfarar gegn Kúrdum í Anfal-héraði muni hefjast í ágúst þegar áætlað er að réttarhöldunum sem nú standa yfir verði lokið.

Sú ákvörðun var tekin áður en réttarhöld yfir Saddam hófust síðasta haust, að réttað yrði sérstaklega vegna hvers glæps sem hann er talinn hafa á samviskunni, í stað þess að henda öllu saman í eina stóra ákæru. Herferðin í Anfal-héraði í Norður-Írak snerist gegn Kúrdum sem kröfðust sjálfstæðis frá Írak seint á níunda áratug síðustu aldar og er talið að yfir 100 þúsund Kúrdar hafi látið lífið í röð ódæðisverka.

Jafnvel þó að Saddam verði dæmdur til dauða í þessum réttarhöldum verður refsingunni slegið á frest til þess að ljúka megi réttarhöldum fyrir alla stríðsglæpi sem forsetinn fyrrverandi er ákærður fyrir. Þetta er talið mikið réttlætismál fyrir fórnarlömb stríðsglæpa í stjórnartíð Saddams.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×