Erlent

Íbúar á Haítí kjósa forseta og þing

Friðargæsluliðar við kosningaeftirlit á Haítí.
Friðargæsluliðar við kosningaeftirlit á Haítí. MYND/AP

Íbúar á Haítí kjósa sér forseta og þing í dag. Þetta eru fyrstu kosningar þar í landi síðan Jean-Bertrand Aristide, fyrrverandi forseta, var komið frá völdum í blóðugri uppreisn fyrir tveimur árum. Hátt í 10 þúsund friðargæsluliðar Sameinuðu þjóðanna annast kosningaeftirlit.

Búið er að fresta kosningum í landinu ítrekað vegna átaka í landinu. Bandaríkjamenn og Sameinuðu þjóðirnar hafa hvatt til kosninga þar sem hægt verði að tryggja stöðugleika í þessu fátæka landi. Bráðabirgðastjórn hefur stýrt landinu síðustu 2 árin eða allt frá því Aristide, fyrrverandi forseti var hrakinn í útlegð til Suður Afríku.

Um það bil 30 sækjast eftir forsetaembættinu og mörg hundruð frambjóðendur bítast um 129 sæti á þingi. Talið er líklegt að Rene Preval, fyrrverandi bandamaður Aristides, fyrrverandi forseta, og kaupsýslumaðurinn Charles Henry Baker takist helst á um forsetaembættið.

Preval er þó talinn ögn sigurstranglegri. Hann er sagður vinsæll meðal almennings en hann var forseti landsins á árunum 1996 til 2001 og einn fárra sem hafa setið út kjörtímabil sitt. Fái engin forsetaframbjóðenda hreinann meirihluta í dag verður kosið milli tveggja efstu í mars.

Hátt í fjórar milljónir Haítí-búa eru á kjörskrá og margir þeirra búa langt frá næsta kjörstað. Kjósendur hafa því verið hvattir til að vakna snemma til að ná á kjörstað í tæka tíð. Kjörstaðir voru opnaðir fyrir rúmri klukkustund og verður lokað klukkan níu í kvöld. Erfiðlega hefur gengið að koma kjörgögnum til skila og hafa þau ýmist verið flutt með múlösnum eða þyrlum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×