Erlent

Ráðist á höfuðstöðvar ferjufyrirtækis

Ferjan sem sökk.
Ferjan sem sökk. MYND/AP

Til óeirða kom í morgun fyrir utan höfuðstöðvar egypsks fyrirtækis sem gerði út ferju sem sökk í Rauðahaf fyrir helgi. Um 1400 farþegar og rúmlega 200 manna áhöfn voru um borð þegar ferjan sökk og er 800 enn saknað.

Búið er að bjarga 400 manns og tæplega 200 lík hafa fundist.

Mörg hundruð ættingjar þeirra sem voru um borð söfuðustu saman fyrir utan höfðustöðvar fyrirtækisins El Salam Maritime í hafnarborginni Safaga í Egyptalandi á föstudag og biðu frétta af ástvinum sínum.

Það var svo í morgun sem fólkið réðst inn í byggingu fyrirtækisins, braut allt og bramlaði og lagði eld að ýmsu lauslegu. Óeiðralögregla þurfti að beita táragasi til að dreifa mannfjöldanum og hafa mótmælendur kvartað yfir því að lögreglan hafi beitt þá harðræði.

Einnig kom til átaka við sjúkrahús í borginni í morgun. Ættingjar þeirra sem létust saka yfirvöld um seinagang auk þess sem upplýsingar hafi verið af skornum skammti. Flestir farþegar um borð voru fátækir egypskir verkamenn á leið frá Sádí Arabíu.

Þeir sem komust lífs af úr slysinu segja að áhöfnin hafi ekki brugðist rétt við þegar eldur kviknaði um borð í skipinu og áfram hafi verið siglt á meðan hann logaði. Því er einnig haldið fram að skipstjórinn og áhafnarmeðlimir hafi stokkið í björgunarbáta þegar ljóst var í hvað stefndi. Egypsk yfirvöld segja skipstjórann enn ófundinn. Egypska þingið hefur krafist þess að slysið verið rannsakað ítarlega.

 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×