Erlent

Ekkert neyðarkall barst frá egypsku ferjunni

Ekkert neyðarkall barst frá egypsku ferjunni áður en hún hvarf af ratsjá og sökk í Rauðahafið í nótt. Talið er að um þrettán hundruð manns hafi verið um borð en aðeins hefur tekist að bjarga um eitt hundrað þeirra. Ekki er talið að um hryðjuverk hafi verið að ræða.

Ferjan, sem var þrjátíu og fimm ára gömul, sökk um sjötíu kílómetra fjarlægð frá egypsku höfninni Hurghada á milli miðnættis og tvö í nótt. Flestir farþeganna voru sofandi þegar ferjan steyptist ofan í kaldan sjóinn en aðeins hefur tekist að bjarga um eitt hundrað manns sem fundust í fimm björgunarbátum. Flestir farþeganna voru egypskir pílagrímar en einnig voru pílagrímar frá Súdan og Sýrlandi í ferjunni, á leiðinni frá hinni heilögu borg Mekka í Sádí Arabíu. Egypska strandgæslan missti samband við ferjuna fljótlega eftir að hún lagði af stað frá höfn í gærkvöld en ekkert neyðarkall barst áður að sögn þarlendra yfirvalda. Alls liðu tíu klukkustundir frá því samband rofnaði og björgunarmenn komust á staðinn en vegna slæmra veðurskilyrða gekk illa að staðsetja hvar ferjan fór nákvæmlega niður. Jack Straw, utanríkisráðherra Breta var á fundi með forsætisráðherra Súdan þegar fregnir af slysinu bárust.

Sem fyrr segir voru veðurskilyrði mjög slæm þegar ferjan sökk og áttu björgunarskip og þyrlur erfitt með að athafna sig á slysstað. Fjöldi sjúkrabíla er nú við nálægustu hafnir þar sem slysið varð en litlar líkur eru þó taldar á að mikið fleiri finnist á lífi. Ferjuslys eru tíð í þessum hluta heimsins og yfirvöld margoft verið gagnrýnd fyrir lélegt eftirlit með öryggi.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×