Viðskipti innlent

Stýrivextir Seðlabankans hækka

Seðlabanki Íslands hækkaði í morgun stýrivexti sýna um 0,25 prósentustig. Hækkunin er í samræmi við spár greiningardeilda bankanna sem spáð höfðu 25 til 50 punkta hækkun.

Frá og með 31. janúar verða stýrivextir því 10,75 prósentur. Aðrir vextir bankans verða líka hækkaðir um 0,25 prósentur frá 1. febrúar.

Seðlabanki Íslands hefur hingað til tilkynnt um vaxtaákvarðanir sýnar fjórum sinnum á ári, um leið og gefið hefur verið út rit bankans, Peningamál.

Í nóvember síðastliðnum var hins vegar ákveðið að fjölga opinberum vaxtaákvarðanadögum í sex og fækka um leið um eina á ári í útgáfu Peningamála.

Bankinn áskilur sér þó einnig rétt til að breyta stýrivöxtum á öðrum tímum.

Næsta vaxtaákvörðun Seðlabankans verður að óbreyttu birt fimmtudaginn 30. mars, um leið og næsta hefti Peningamála kemur út.

 








Fleiri fréttir

Sjá meira


×