Erlent

Skæruliðahópur sprengdi olíuholur- og leiðslur

Skæruliðahópur í Kólumbíu sprengdi átta olíuborholur og þrjár olíuleiðslur í Amason-regnskógunum í loft upp í gær. Olían hefur valdið miklum umhverfisspjöllum og liggur nú á 100 km löngum kafla árinnar Putumayo.

Stjórnvöld segja um 6.500 olíutunnur hafa farið til spillis en talsmaður olíufélagsins Ecopetrol sem á olíuna segir það ekki nákvæmlega vitað. Ljóst sé þó að um alvarlega umhverfisspjöll sé að ræða. Ríkisstjóri Putumayo segist hafa skoðað olíulekann úr lofti og fullyrðir að um stórslys sé að ræða.

Um 20 þúsund manns nota vatn úr ánum en þau eru nú beðin um að forðast þær. Nú er sá árstími regnskóganna þegar þurrt er og því munu olían skolast hægar burt en ef regntími væri. Frelsisher Kólumbíu stendur að baki árásunum en liðsmenn hans eru um 12 þúsund talsins. Olía er ein mesta útflutningsvara Kólumbíu og hafa skæruliðar gert árásir á olíuleiðslur og -mannvirki til þess að koma höggi á stjórnvöld sem þeir hafa barist gegn síðastliðin fjörutíu ár.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×