Innlent

Íslendingar sendu 800 þúsund SMS-skilaboð á gamlárskvöld og fram á nýársdagsmorgun.

Íslendingar sendu 800 þúsund SMS-skilaboð á gamlárskvöld og fram á nýársdagsmorgun.

Það er fátt sem hefur vaxið með öðrum eins ógnarhraða á síðustu árum eins og fjöldi Sms-sendinga. Í aldarbyrjun sendu jarðarbúar ekki nema 17 milljarða sms sendinga á ári, ári eftir var fjöldinn kominn í 250 milljarða og árið 2004 sendu farsímanotendur yfir 500 milljarða sms sendinga, sem þýðir að hver einasti jarðarbúi sendi 8-9 sms á ári.

Þessar tölur blikna þó í samanburði við sms skeytasendingar Íslendinga á síðasta degi ársins. Samkvæmt upplýsingum frá Símanum og Og Vodafone þá sendu landsmenn tæplega 800 þúsund Sms frá því klukkan 9 á gamlárskvöld fram til klukkan 9 á nýársdagsmorgun. Á þessum 12 klukkustundum sendi hver Íslendingur því að jafnaði tæplega 3 sms. Væru Íslendingar jafnduglegir að senda skeyti aðra daga ársins, myndi hver Íslendingur á einu ári senda rúmlega 2000 sms, sem er auðvitað fjarri öllum sanni.

Sms kosta 10 krónur stykkið og því er þessi skeytagleði Íslendinga á síðustu og fyrstu stundum ársins að andvirði 8 milljónir króna. Eva Magnúsdóttir, upplýsingafulltrúi Símans segir þó óvarlegt að slá því föstu að símafyrirtækin hafi tekið þá upphæð inn á þessum 12 klukkustundum, því mikið af þessum skeytasendingum séu sendar ókeypis í gegnum alls kyns tilboð símafyrirtækjanna eða í gegnum tölvu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×