Innlent

Sjúkraflug tók alltof langan tíma

Forseti bæjarstjórnar Vesturbyggðar kennir heilbrigðisráðuneytinu um að þrjá tíma hafi tekið að fá sjúkraflugvél til Bíldudals þegar ungur maður slasaðist við meðferð flugelda í nótt. Vestfirðingar hafa krafist þess að sjúkraflugvél sé til staðar á Ísafjarðarflugvelli en í nótt þurfti að leita til Akureyrar eftir flugvél.

Samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni á Patreksfirði var tilkynnt um að ungur karlmaður hefði fengið brot úr flugeld í andlitið um klukkan 20 mínútur yfir tólf í nótt. 20 mínútum síðar hafði læknir metið meiðsl mannsins þannig að flytja þyrfti hann til Reykjavíkur til aðhlynningar og var því óskað eftir því að flugvélin kæmi til Bíldudals. Vélin lenti þar klukkan þrjú um nóttina - þremur tímum eftir að óskað var eftir aðstoð hennar. Sjúkraflutningamenn höfðu þá beðið á flugvellinum í rúma tvo tíma með manninn. Forseta bæjarstjórnar Vesturbyggðar er ekki skemmt yfir töfunum og hyggst taka málið upp á fundi bæjarstjórnar nú í vikunni. Hann kennir útboði og samningagerð heilbrigðisráðuneytis um ástand mála.

Ungi maðurinn sem slasaðist á Tálknafirði er nú á augnskurðdeild Landspítalans vegna augnmeiðsla sem hann hlaut.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×