Erlent

The Sun grefur upp klámmyndir af Heather Mills McCartney

Breska dagblaðið The Sun birtir í dag svæsnar klámmyndir af Heather McCartney, fyrrverandi eiginkonu bítilsins fræga. Myndirnar eru teknar löngu áður en hún kynntist Sir Paul McCartney.

Heather Mills varð fyrst fræg, sem fyrirsæta, eftir að hún missti annan fótinn í mótorhjólaslysi. Hún hafði sig nokkuð í frammi fyrir málstað fólks sem hafði misst útlimi, og kynntist Sir Paul McCartney við þá iðju. Þau felldu hugi saman, gengu í hjónaband og eignuðust dótturina Beatrice, sem nú er tveggja ára gömul. Í síðasta mánuði tilkynntu þau svo um skilnað sinn, eftir fjögurra ára hjónaband.

The Sun hefur nú grafið upp þýska klámbók sem kom út árið 1988, fyrir átján árum. Heather var þá tuttugu ára gömul. Í bókinni er að finna svæsnar klámmyndir af Heather með óþekktum karlmanni. Þessar myndir birtust í Sun, sem segir af heilagri vandlætingu að þetta séu þær einu sem séu birtingarhæfar í fjölskyldublaði eins og Sun sé.

Til þess að skilja fólk ekki alveg eftir án þess að hafa eitthvað til þess að hneykslast á, lýsir fréttamaðurinn hinum myndunum nokkuð ítarlega og segir að á þeim sé Heather í allskonar samfarastellingum með hinum óþekkta manni.

Sir Paul hefur ávallt tekið upp hanskann fyrir konu sína, einnig eftir að þau skildu. Hann segir að öfundsjúk lítilmenni séu að gera henni lífið leitt, og reyna að koma á hana höggi vegna frægðar sinnar og auðæfa. Búist er við að þegar skilnaður þeirra verði formlegur geti Heather haft á brott með sér um 200 milljónir sterlingspunda úr sjóðum bítilsins.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×