Erlent

Skipt um sjö undur veraldar

Nýr listi yfir sjö undur veraldar verður kynntur við upphaf næsta árs. Aðeins eitt núverandi undur á möguleika á að halda sess sínu, það er Píramídarnir í Gíza í Egyptalandi. Samkvæmt hefðinni eru það áðurnefndir píramídar í Gíza, Hengigarðurinn í Babýlon, Seifsstyttan í Olympíu, Artemismusterið Efesos, Grafhvelfingin í Halikarnassos, Kólossos á Ródos og Vitinn í Faros við Alexandríu sem hafa talist sjö undur veraldar. Það voru forngrikkir sem tóku listann saman um árið tvö hundruð fyrir krist og var listinn í raun hugsaður til upplýsingar fyrir ferðamenn frá Aþenu. Það var svo árið 2000 sem ákveðið var að setja saman nýjan lista. Stofnaður var sjóður um ný undur veraldar sem hefur aðsetur í Zurich í Sviss. Búið er að útefna tuttugu og einn stað sem keppa um sæti á listanum en upphaflega stóð valið á milli sjötíu og sjö staða víðsvegar um heim. Meðal þeirra staða sem nú koma til greina eru Taj Mahal höllin á Indlandi, Stonehenge í Englandi, Akrópólís hæð í Aþenu, óperuhúsið í Sydney, Frelsisstyttan í New York og Kínamúrinn. Hægt er að greiða stöðunum atkvæði á netinu og endanlegur listi verður birtur á nýársdag 2007.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×