Innlent

Segir fyrirsögn Blaðsins uppblásna

Blaðið gerir því skóna á forsíðu sinni í dag að fréttastöðin NFS fari innan skamms að leggja upp laupana, auk þess sem mikil hagræðing og endurskipulagning standi til í tímaritaútgáfu 365. Ari Edwald, forstjóri 365 segir fyrirsögnina uppblásna. Ekki hafi verið teknar neinar svo stórvægilegar ákvarðanir.

Forsíðufrétt Blaðsins í dag er á þá leið að lokun NFS sé í undirbúningi. Blaðið segist hafa eftir öruggum heimildum að vonbrigði með rekstur nokkurra fjölmiðla fyrirtækisins hafi sett mikinn þrýsting á stjórnendur að sýna hagræðingu í rekstri fyrir níu mánaða uppgjör. Þetta verði gert með því að loka sjónvarpsfréttastöðinni NFS og stöðva útgáfu tímaritanna Hér og nú, Veggfóðurs, Birtu og Sirkuss. Einnig er sagt að framtíð DV sé óljós.

Ari Edwald, forstjóri fjölmiðlafyrirtækisins 365 segir að fyrirsögn Blaðsins sé uppblásin, ekki hafi verið teknar ákvarðanir um neinar stórvægilegar breytingar. Hins vegar séu alltaf til athugunar allar leiðir til hagræðingar. Aðspurður hvort sú hugmynd hafi ekki komið upp að leggja niður útsendingar NFS viðurkennir hann að allar hugmyndir hafi verið ræddar, þetta hafi verið ein af þeim. Hins vegar hafi engar ákvarðanir verið teknar, eins og Blaðið vill meina.

Hann segir getgátur um aflögn tímarita hins vegar algjörlega úr lausu lofti gripnar, rekstur þessara tímarita hafi gengið vel og sérstaklega DV eftir að blaðinu var breytt í helgarblað. Því sé ekkert fyrirhugað annað en að styrkja rekstur þeirra og útgáfu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×