Erlent

Náðu samkomulagi í gasdeilu

Rússar og Úkraínumenn hafa komist að samkomulagi í gasdeilunni. En rússneska gasfyrirtækið Gazprom lokaði fyrir gassölu til Úkraínu í fyrradag vegna ósættis um verðlag. Evrópskir fjölmiðlar segja gjörðir Rússa hafa gert heimsbyggðina tortryggna gagnvart Pútín forseta og stjórnvöldum í landinu.

Gassamningurinn gildir til fimm ára og felur í sér verðhækkanir í áföngum. Deilurnar spruttu vegna þess að Rússar sökuðu Úkraínumenn um að stela gasi sem dælt er um Úkraínu til Vestur Evrópu og hækkuðu því verðið margfallt. Deila ríkjanna tveggja hefur haft áhrif víða í Evrópu en Evrópuríki fá um fjórðung þess gass sem þau nota, frá Rússlandi og um 80% af því gasi er flutt um leiðslur sem liggja yfir Úkraínu.

Stjórnmálskýrendur segja málið snúast um stjórnmál frekar en peninga. Evrópskir fjölmiðlar hafa gagnrýnt stjórnvöld í Rússlandi fyrir að beita óábyrgum og óskynsamlegum aðferðum í gasdeilunni og að Pútín hafi gert ríki Evrópu tortryggin gagnvart sér og sinni stjórn. Breska blaðið Financial Times segir málið hafa skaðað ímynd Rússlands því augljóst sé að Pútín hafi verið að koma fram hefndum gegn Yushchenko, forseta Úkraínu. Segir blaðið lítinn mun á því að sýna fram á efnahagslegan styrk sinn og að senda skriðdreka inn í ríki til að refsa fyrir ótryggð eins og gert var á tímum Sovétríkjanna. Þá segir Herald Tribune í París hegðun rússneskra stjórnvalda óskynsamlega og grimma.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×