Erlent

Fundu lík námumanns fjórum mánuðum eftir sprengingu

Björgunarmenn í Norður-Mexíkó fundu í gær fyrsta líkið af 65 mexíkóskum námumönnum, fjórum mánuðum eftir að sprenging varð í námu sem þeir voru að vinna í.

Lík mannsins fannst undir grjóthruni í gærmorgun þegar verið var að ryðja námugöng í grennd við þar sem gassprenging varð í Pasta de Conchos námunni í Norður-Mexíkó þann 19. febrúar síðastliðinn. Þrátt fyrir miklar björgunaraðgerðir, náðist ekki að bjarga 65 mönnum sem urðu undir grjóti eða lokuðust inni í sprengingunni. Lík þeirra eru enn týnd inni í námunni, fjórum mánuðum seinna.

Fjölskyldur og ættingjar námuverkamannanna hafa sagt aðbúnað og öryggi í námunni hafi verið stórlega ábótavant og hafa hvatt um fimm þúsund námuverkamenn í Mexíkó til að fara í verkfall til að krefjast aukins öryggis.

Námufyrirtækið Grupo Mexico hefur boðið fjölskyldum allra fórnarlambanna andvirði fimm og hálfrar milljónar króna í sárabætur til viðbótar við þær bætur sem þeim ber lögum samkvæmt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×