Viðskipti innlent

Dregur úr vexti íbúðarlána

Sérfræðingar greiningardeildar Landsbankans segja íbúðalán bankanna á árinu 2005 hafi numið alls 203,6 ma.kr. en síðustu fjóra mánuði ársins 2004 voru afgreidd ný lán fyrir samtals 120 ma.kr. Heldur dró úr fjölda og upphæð nýrra lána í mánuði þegar  leið á árið 2005. Í desember voru afgreidd 1287 ný íbúðalán en meðalfjöldi í mánuði á árinu fram að því var 1817 lán.

Alls námu ný lán í desember 12,4 ma.kr. en meðaltal fyrstu ellefu mánaða ársins var 17,4 ma.kr. Frá því að þessi lán hófust um mánaðamótin ágúst-september 2004 hefur ekki áður verið afgreitt jafn lítið af lánum í einum mánuði.  

Lánin fóru af stað með miklum krafti og í október til desember 2004 voru afgreidd um það bil 3000 lán á mánuði. Fjöldi nýrra lána sveiflaðist síðan á bilinu 1500 til 2100 lán á mánuði á síðasta á ári þar til í desember þegar þau fóru niður fyrir 1300.

Samdráttur í fjölda nýrra íbúðalána bankanna frá nóvember til desember 2005 var 25% en heildarupphæð nýrra lána dróst saman um 18%. Á tólf mánaða tímabilinu frá desember 2004 til desember 2005 dróst fjöldi nýrra lána saman um 55% og upphæðin um 60%.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×