Lífið

Þau tíðkast nú hin breiðu spjótin

Forlagið Nýhil færir enn út kvíarnar Útgáfuhreyfingin hefur að mestu einbeitt sér að ljóðum en nú er von á tveimur skáldsögum. Fyrsta upplestrarkvöld vetrins verður haldið í Þjóðleikhúskjallaranum í kvöld
Forlagið Nýhil færir enn út kvíarnar Útgáfuhreyfingin hefur að mestu einbeitt sér að ljóðum en nú er von á tveimur skáldsögum. Fyrsta upplestrarkvöld vetrins verður haldið í Þjóðleikhúskjallaranum í kvöld MYND/Hörður

Stórtíðindi berast úr herbúðum útgáfuhreyfingarinnar Nýhil sem blæs til upplestrarkvölds í Þjóðleikhúskjallaranum í kvöld. Þór Steinarsson, forvígismaður kynningarmála félagsins, segir þar von á stórkostlegri upplifun sem enginn megi missa af.

Höfundar þeirra sjö titla sem komið hafa út hjá forlaginu það sem af er ári munu lesa úr verkum sínum, auk þess sem haust- og vetrarverk efni hópsins verða kynnt. "Í kvöld lesa skáldin sem eiga bækur í seinni seríu Norrænna bókmennta en það eru Ófeigur Sigurðsson, Kristín Eiríksdóttir, Þórdís Björnsdóttir, Valur Brynjar Antonsson og Steinar Bragi," segir Þór og bætir við að Þórdís lesi einnig ásamt skáldinu Jesse Ball úr nýútkominni bók þeirra, Veru & Linus. Rithöfundurinn Þorsteinn Guðmundsson mun síðan einnig mæta á svæðið og lesa úr nýútkominni ljóðabók sinni Barkakýli úr tré en milli orðhagra skáldanna mun söngkonan Lay Low létta lund gesta.

Þór útskýrir að Nýhil-hreyfingin sé síst að leggjast í haustdvala eða kröm. "Nýhil er bara vaxandi - í hugum okkar og hjörtum þjóðarinnar," segir hann, " og það eru stórtíðindi á leiðinni." Hann útskýrir að nú sé von á tveimur skáldsögum frá forlaginu - frumburði skáldsins Bjarna Klemens sem hefur komið fram á mörgum ljóðakvölda hópsins og annars vel þekkst Nýhilskálds, Hauks Más Helgasonar. "Það hefur alltaf verið stefna okkar að gefa út vandaðan skáldskap. Þótt við höfum einblínt á ljóðið hefur aldrei verið útilokað að gefa út skáldsögur líka. Reyndar er þetta ekki alveg nýtt fyrir okkur því á síðasta ári gáfum við út skáldsögu Örvars Þóreyjarsonar Smárasonar, úfin, strokin," áréttar Þór.

Fleira kann líka að vera í pípunum hjá Nýhil enda útskýrir Þór að forlagið haldi sínum dyrum galopnum. "Ef við fáum eitthvað í hendurnar er það sannarlega tekið til skoðunar en það er þó langt því frá að það leynist stórkostleg handrit að bókum á hverju strái. ekki síst þegar kröfurnar eru miklar," segir hann.

Í vetur verður ennfremur stefnt að líflegu og marghátta menningarstarfi á vegum Nýhils og er þetta því vart einasta upplestrarkvöld vetrarins. Forlagið á nú einnig innanbúðarmenn í nýjum húsakynnum Smekkleysu við Klapparstíg þar sem það rekur ljóðabókabúð sem að sögn Þórs dafnar vel. "Ljóðasamfélagið rúmast samt ekki innan fjögurra veggja," segir Þór að lokum, "það á heima í huga og hjarta okkar allra".

Upplestrarkvöldið hefst kl. 20.30 í kvöld en húsið opnar hálftíma fyrr.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.