Greining Glitnis les ekki rétt í minnkandi vaxtamun í þjóðhagsspá sinni, að mati Björns Rúnars Guðmundssonar, sérfræðings greiningardeildar Landsbankans. Hann telur að ekki bresti flótti á fjárfesta þótt minni munur verði á vaxtastigi hér og í viðskiptalöndum landsins.
Ósamræmi er í spám greiningardeilda Landsbankans og Glitnis um gengisþróun á næsta ári. Greining Glitnis telur að krónan komi til með að veikjast en Landsbankinn býst frekar við að krónan styrkist.
Í áliti Landsbankans er því haldið fram að þrýstingur verði á krónuna til hækkunar. Svo lengi sem vaxtamunur gagnvart útlöndum haldist hár og jákvæðar fréttir berist áfram af íslensku efnahagslífi séu líkur á hækkun á gengi krónunnar.
Björn Rúnar Guðmundsson segist telja að ákveðinn viðsnúningur hafi orðið og að erlendir fjárfestar beri nú aukið traust til íslensks efnahagslífs. Slíkt hafi jákvæð áhrif á hlutabréfa-, skuldabréfa og gjaldeyrismarkaði.
Björn telur að innlausn jöklabréfa síðar á árinu komi ekki til með að hafa veruleg áhrif á gengi krónunnar. "Jafnvel þótt eitthvað dragi saman verður vaxtamunurinn áfram mikill. Minni vaxtamunur þarf heldur ekki að þýða að fjárfestar flýi allir úr landi. Fjárfestar tjalda ekki til einnar nætur."
Í Þjóðhagsspá greiningar Glitnis er því spáð að meðaltalsgildi gengisvísitölunnar verði kringum 130 á næsta ári og að krónan eigi því eftir að veikjast um sex prósent frá núgildi.