Viðskipti erlent

Fáir syrgja einræðisherra

Fjölmiðlar víða um heim hafa skrifað eftirmæli um Augusto Pinochet, fyrrum einræðisherra í Chile, sem lést á herspítala í Santiago á sunnudag.

Breska vikuritið Economist segir fáa syrgja einræðisherrann sem steypti lýðræðislega kjörinni vinstristjórn Salvadore Allende af stóli árið 1973 og réð svo með harðri hendi næstu 17 árin. Pinochet var 91 árs þegar hann lést og hefur Economist eftir aldraðri konu í Chile að löngu hafi verið kominn tími á að almættið kallaði einræðisherrann fyrrverandi til sín.

Rödd konunnar virðist einkennandi fyrir þá sem muna eftir blóðugri valdatíð Pinochets, sem sagður er bera ábyrgð á dauða þúsunda andstæðinga sinna og hafa látið pynta tugi þúsunda. Þá er Pinochet gefið að sök að hafa stungið undan 27 milljónum bandaríkjadala eða tæplega 1,9 milljörðum íslenskra króna, á bankareikninga í eigin nafni í erlendum bönkum.

Pinochet var handtekinn í Lundúnum í Bretlandi árið 1998 og reynt að færa hann í hendur réttvísinnar. Það tókst ekki og vísað til þess að Pinochet væri of hrumur, elliær og of veikburða til að svara fyrir sakir sínar. Töldu því margir að hjartaáfallið, sem hann fékk fyrir rúmri viku, væri enn ein brellan til að komast hjá því. Svo reyndist ekki vera.

 

 

Súrir yfir vægum dómi

Og enn um fjármálasvik og dómstóla því mörgum þykir súrt hversu vægan dóm Andy Fastow, fyrrum fjármálastjóri bandaríska orku-risans Enron, fékk fyrir aðild sína að stórfelldum fjársvikum og bókhaldsbrotum til að láta sem Enron skilaði hagnaði þegar raunveruleikinn var annar.

Bandaríska tímaritið Fortune segir Fastow hafa átt yfir höfði sér allt að tíu ára fangelsisdóm en hann mun hafa gert samkomulag við dómstóla um samvinnu og náði dóminum með því móti niður í sex ár. Að sögn Fortune mun samkomulagið hafa falist í því að Fastow nafngreindi þá aðila hjá ýmsum bönkum og fjármálastofnunum, sem áttu hlutdeild í því að hjálpa Enron við að lifa í lygi og fela jafnvirði 2.900 milljarða króna skuldahala fyrir hluthöfum.

Fortune segir sömuleiðis að Fastow geti stytt dóminn enn frekar, eða niður í fimm ár. Það er einungis hægt fari hann í afvötnun en Fastow er sagður háður róandi lyfjum. Lái honum hver sem vill en Enron-málið mun hafa reynt á flesta sakborninga. Er skemmst að minnast örlaga Kenneths Lay, fyrrverandi forstjóra Enron, sem átti yfir höfði sér áratuga fangelsi. Hann lést af völdum hjartaáfalls í sumarhúsi sínu í júlí.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×