Viðskipti erlent

Fjölmiðlarisar fara gegn YouTube

Bandarískir fjölmiðlarisar eru sagðir hafa í hyggju að setja á laggirnar vefsvæði til höfuðs YouTube.
Bandarískir fjölmiðlarisar eru sagðir hafa í hyggju að setja á laggirnar vefsvæði til höfuðs YouTube. MYND/AFP

Jón Aðalsteinn Bergsveinsson

skrifar

Bandarísku fjölmiðla- og afþreyingarrisarnir News Corp., Fox, Viacom, CBS og NBC, eru sagðir eiga í viðræðum um að búa til vefsvæði þar sem sjónvarpsefni frá fyrirtækjunum verður birt.Vefsvæðið mun verða sett á laggirnar gegn YouTube.

Bandaríska dagblaðið The Wall Street Journal segir málið hafa komið upp fyrr á árinu en viðræðurnar eru skammt á veg komnar. Þá segir ennfremur að markmiðið með stofnun vefsvæðisins sé að ná inn tekjum á ört stækkandi auglýsingamarkaði á Netinu og saxa þannig á markaðshlutdeildir svipaðra vefja. Hugmyndin er að fyrirtækin muni eiga jafnan hlut í vefsvæðinu.

Vöxtur í vefsvæðum þar sem boðið er upp á myndskrár hefur verið gríðarlegur á síðustu árum og nefna menn oft YouTube sem dæmi um vöxtinn. Vefsvæðið var sett á laggirnar fyrir tveimur árum en þar er netverjum gert kleift að birta myndbönd sín af ýmsu tagi. Þar á meðal er efni frá CBS og NBC, sem varið er höfundarréttarlögum.

Daglegir notendur YouTube eru um 100 milljón talsins en netleitarfyrirtækið Google keypti fyrirtækið fyrir 1,65 milljarða dali eða 114 milljarða íslenskra króna fyrir skömmu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×