Skoðun

Sátt um lausnir á vanda LSH

Það getur reynst erfitt að vera stór og taka til sín mikið af almannafé. Stærsta fyrirtæki landsins, Landspítalinn, með yfir 5.000 starfsmenn, hefur fundið fyrir því. Um það bil 9 prósentum af útgjöldum ríkisins er veitt til reksturs spítalans.

Miklar breytingar hafa átt sér stað í rekstri spítalans frá sameiningu sjúkrahúsanna. Margar hafa þær skilað góðum árangri. Aukin áhersla er á þjónustu við sjúklinga á dag- og göngudeildum og er það í samræmi við þróun erlendis. Biðlistar vegna aðgerða hafa almennt minnkað.

Ströng hagræðingarkrafa er á spítalann og hefur verið gripið til ýmissa ráðstafana. Áhyggjur er um að gengið hafi verið of nærri gæðum þjónustunnar. Mikið álag er á starfsmenn og skortur á starfsfólki magnar vandann. Starfsfólk á hins vegar hrós skilið fyrir þá þjónustu sem það veitir við erfiðar aðstæður.

Nú þarf hins vegar að staldra við. Fram hefur komið að rekstrarkostnaður LSH hefur á föstu verðlagi staðið í stað frá sameiningu sjúkrahúsanna. Á sama tíma hefur starfsemi spítalans aukist m.a. vegna fjölgunar aldraðra. Skýringar stjórnenda um 1 milljarðs króna hallarekstur í ár eru góðar og gildar og varða ýmsa þætti sem spítalinn ræður ekki við, t.d. óhagstæða gengisþróun, áhrif þenslu á vinnumarkaði og aukin launatengd gjöld. Það verður ekki lengra gengið í fjárhagslegu tilliti gagnvart spítalanum, nema stjórnvöld séu reiðubúin að taka á sig ábyrgð að endurskilgreina verkefni sjúkrahússins.

Ég tel fulla ástæðu til að ganga af alvöru til þess verks. Færa þarf verkefni frá spítalanum til annarra stofnana eða aðila sem eru til þess betur bærir. Hér á ég t.d. við um öldrunarþjónustu, heimahjúkrun, félagslega þjónustu svo og sjúkramóttöku vegna minniháttar sjúkdóma og slysa, sem á að veita á heilsugæslustöðvum. Þessu er nú sinnt af spítalanum m.a. vegna skorts á öðrum úrræðum eða ókunnugleika fólks um hvert það á að leita þjónustu. Þá þarf að auka samvinnu milli þeirra sem sinna sjúklingum til að skapa meiri samfellu í þjónustu við þá.

Bæta þarf sjúkrahúsinu hallarekstur þessa árs, en nota tækifærið og gera þessar breytingar öllum til hagsbóta.




Skoðun

Sjá meira


×