Skoðun

Dýraníð og lögin

Vegna frétta í fjölmiðlum af dýraníði (dyresex) vegna kynferðislegrar misnotkunar á íslenskum hesti í Danmörku vill Dýraverndarsamband Íslands koma á framfæri eftirfarandi athugasemdum.

Engin ákvæði eru til í íslenskum lögum, sem banna beinlínis þessháttar verknað gagnvart dýrum en hinsvegar segir í lögum nr. 15/1994 um dýravernd 2. gr: "Skylt er að fara vel með öll dýr. Óheimilt er að hrekkja dýr eða meiða. Forðast skal að ofbjóða kröftum þeirra og þoli."

Í október 2004 kom upp slíkt mál í Þorlákshöfn og kærði hestaeigandinn meintan dýraníðing fyrir innbrot í hesthúsið sitt og jafnframt fyrir að hafa haft í frammi kynferðislega áreitni við hrossin þar. Lögregluembættið í Árnessýslu tók málið föstum tökum og mun það bæði hafa verið rannsakað sem innbrot en líka sem brot á lögum um dýravernd. Fékk það alveg sömu málsmeðferð og ef um nauðgun hefði verið að ræða. Sýni og lífsýni voru tekin af meintum geranda og hrossunum og send til útlanda til DNA-greiningar.

Niðurstöður voru ekki nógu afgerandi til þess að verknaðurinn þætti tvímælalaus enda er sönnunarbyrðin mjög rík í slíkum málum. Sök um dýraníð þótti því ekki nægilega sönnuð en viðkomandi mun hafa fengið einhverja refsingu fyrir innbrotið í hesthúsið.

Í umræðunni í fjölmiðlum um þessi mál hafa komið fram fyllyrðingar um að þar sem ekki séu til í lögum nein bein ákvæði um svona mál endi þau yfirleitt ekki í kæru þar sem oftast sjái ekki á dýrunum. Þetta er sem betur fer rangt eins og dæmið hér að ofan sannar, þar sem fram kemur að lögreglan í Árnessýslu rannsakaði svona dýra­níðingsmál sem brot á framangreindri grein í dýraverndarlögunum og með alveg sama hætti og ef um nauðgun hefði verið að ræða. Á lögreglan hrós skilið fyrir þessi frábæru vinnubrögð. Í íslenskum rétti er til urmull af lögum og reglugerðum og samþykktum um hverskonar meðferð dýra - en því miður er það gömul saga og ný að þau eru vita gagnslaus ef þeim er ekki fylgt eftir af þar til bærum aðilum.

 



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Skoðun

Sjá meira


×