Skoðun

Frelsi í stað ríkisafskipta

Ábyrgð ríkisins á verðlagi

Mikið er nú rætt um að verð á hinu og þessu hérlendis sé það hæsta í heiminum. Engum blöðum er um það að fletta að þær athuganir eiga sér ríka stoð í raunveruleikanum. Má þar til dæmis nefna landbúnaðarafurðir, grænmeti og ávexti, bensín og áfengi. Hvernig stendur á því að þessi verð eru svona gríðarlega há hérlendis?

Nú hefur verð á flutningsþjónustu, gámaplássi og öðru farið lækkandi ár frá ári vegna samkeppni fyrirtækjanna í flutningum. Álagning smásöluverslana hefur lækkað ár frá ári vegna mjög mikillar samkeppni þeirra á meðal. Nýjar verslanir spretta upp í mánuði hverjum og blanda sér í samkeppnina. Tækninýjungar og hagræðing í birgðahaldi og tilkoma vöruhótela við hafnir hefur lækkað allan kostnað við birgðahald. Í nær öllum hliðum smásölunnar hafa átt sér stað miklar framfarir sem stuðla að lægra vöruverði.

Þó er eitt atriði í þessu öllu sem hefur lítið breyst frá því að smásala hófst hérlendis. Það eru afskipti ríkisins. Skattar og tollar á vörur og þjónustu virðast ekki eiga sér nokkur takmörk. Það er staðreynd að nefnd á vegum ríkisins heldur uppi ofurverði með handstýringu á verði landbúnaðarafurða. Það er einnig þekkt að grænmeti og ávextir eru meðal þeirra vara sem bera hvað hæstan toll. Vitað er að þegar allt er talið fá Olíufélögin um 30% af hverjum seldum lítra og ríkið tekur 70%. Að lokum er einnig ljóst að áfengi er selt í einokunarverslun ríkisins og verði handstýrt þar með tollum og öðru.

Það er ríkisvaldið sem í senn tekur stóran hluta tekna fólks með sköttum og leggur svo stóran stein í götu þeirra sem stunda framleiðslu og innflutning í landinu með margs konar tollum og höftum. Vert er að snúa af þessari braut sem allra fyrst. Það er ekki eðlilegt að láglaunafólk þurfi að vinna í 4 klst. til að geta keypt sér rauðvínsflösku með kvöldmatnum. Það er ekki eðlilegt að ríkið stjórni því hvað neytendur velja. Það er í frelsinu sem bæði neytendum og framleiðendum vegnar sem best. Það er í frelsinu sem Ísland hefur náð árangri ekki í viðjum hafta og ríkisafskipta.

Höfundur er nýkjörinn formaður Frjálshyggjufélagsins.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Skoðun

Sjá meira


×