Viðskipti innlent

KB banki tekur 43 milljarða króna lán

Óli Kristján Ármannsson skrifar
Skrifað verður í vikunni undir sambankalán í Evrópu til Kaupþings banka að upphæð allt að 500 milljónir evra, um 43 milljarðar króna. 27 bankar taka þátt í láninu, en millibankalánamarkaður er einn valkosta í fjármögnun banka við hlið skulda­bréfa­útgáfu.

Sambankalánið er annars vegar til þriggja og hins vegar til fimm ára og kjörin sem bankanum bjóðast sögð afar hagstæð, 17,5 og 23,5 punktum yfir Euribor, millibankavöxtum í Evrópu. Til samanburðar segir Guðni Aðalsteinsson, framkvæmdastjóri Fjárstýringar KB banka, að ávöxtunarkrafa fimm ára skuldabréfa hafi verið 70 til 80 punktum yfir Euribor.

Í gær kom út ný skýrsla þar sem fjárfestingarbankinn Morgan Stanley mælir ekki með KB banka sem fjárfestingarkosti á skuldabréfamarkaði og greinir þar á milli hans og hinna bankanna tveggja.

Guðni segir erfiðara með fjármögnun á skuldabréfamarkaði að sinni og telur að í kjörunum sem þar bjóðast endurspeglist neikvæð skrif greiningardeilda að undanförnu. Heldur kveður þó við jákvæðari tón í skýrslu Morgan Stanley.

Augljóst var að markaðurinn fór á flótta um leið og Merrill Lynch gaf út sína skýrslu og eins þegar Fitch breytti lánshæfishorfum ríkisins, segir hann en telur bankann vel settan hvað varðar frekari fjármögnun.

Hann segir bankann hafa tímann fyrir sér, gjalddagar séu ekki fyrr en með haustinu og uppi séu áætlanir um útgáfu skuldabréfa bæði í Bandaríkjunum og Asíu, auk þess sem bankinn eigi líka 8,7 milljarða í auðseljanlegum eignum, ef í harðbakkann slær.

„En við fengum góðar móttökur í sambankaláninu. Kjörin eru góð og endurspegla traust á Kaupþingi banka á evrópskum bankamarkaði,“ segir hann. Heildarendurfjármögnun bankans á árinu nemur um 1,3 milljörðum evra, fyrir utan endurfjármögnun bankanna FIH og Singer og Friedlander, en þeir bankar sjá um sína endurfjármögnun sjálfir.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×