Viðskipti innlent

Gagnvirkt sjónvarp væntanlegt

Hagnaður Símans fyrstu sex mánuði ársins var tæpir 2,2 milljarðar króna. Á sama tíma í fyrra nam hagnaðurinn rúmum 1,2 milljörðum. Tekjur félagsins hafa aukist meira en útgjöld á þessum tíma. Mest var tekjuaukningin á farsímasviði, um 450 milljónir króna. Í uppgjörinu munar þó mest um hagnað af sölu hlutabréfa í Straumi fjárfestingarbanka, sem var 702 milljónir króna. Einnig voru seld hlutabréf í gervihnattafélagi sem skilaði 106 milljónum í hagnað. Arðsemi eigin fjár hækkaði úr 16 prósentum í tæpt 31 prósent. Í tilkynningu Símans til Kauphallar Íslands í gær segir að fjarskiptamarkaðurinn sé í örum vexti og framtíðarhorfur fyrirtækisins góðar. Síminn hafi ráðist í stóra uppfærslu á ADSLkerfinu til að geta sinnt sjónvarpsþjónustu Símans. „Að uppfærslunni lokinni verður hraðinn meiri, sjónvarpsstöðvum í sjónvarpsþjónustu mun fjölga auk þess sem gagnvirkt sjónvarp er handan við hornið,“ segir í tilkynningunni. Í uppgjörinu kemur fram að Síminn á tæp 90 prósent hlutafjár í Íslenska sjónvarpsfélaginu, sem rekur Skjá einn. Á tímabilinu breytti Síminn 750 milljón króna skuld sjónvarpsfélagsins í hlutafé. Ekki er gefið upp á hvaða gengi Síminn keypti hlutabréfin í Skjá einum. Bæði greiningardeild Landsbankans og KB banka segja rekstrarárangur Símans á öðrum ársfjórðungi betri en spáð var. Starfsfólk beggja bankanna gerði ráð fyrir því að Síminn myndi hagnast um 780 milljónir króna. Niðurstaðan var hins vegar 928 milljóna króna hagnaður.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×