Innlent

Frestur olíufélaganna úti

Samkvæmt úrskurði Samkeppnisstofnunar áttu olíufélögin að greiða sekt upp á rúmlega einn og hálfan milljarð vegna ólöglegs verðsamráðs. Í gær rann svo út fresturinn sem þau höfðu til að standa skil á sínum greiðslum. Aðspurður sagðist Stefán Kjærnested, varafjársýslustjóri ríkisins, ekki hafa heimild til að gefa upp hvort olíufélögin hefðu innt greiðslur sínar af hendi en þau hefðu þó frest til klukkan fimm til að millifæra. Jónas Guðbjörnsson, framkvæmdastjóri fjármálasviðs Olíufélagsins, sagði Olífélagið ekki ætla að greiða sinn hluta fyrr en fjármálaráðuneytið hefði svarað formlega spurningum um bankaábyrgð. Þó væri ekki ætlun Olíufélagsins að skorast undan því að greiða sinn hluta, einungis að hafa allt á hreinu. Árni Ármann Árnason, fjármálastjóri Skeljungs, sagði Skeljung hafa greitt sinn hluta án athugasemda fyrir frestinn enda væri stefna félagsins að borga alla reikninga án tafar. Ekki náðist í fjármálastjóra Olís við gerð þessarar fréttar.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×