Erlent

Uppreisnarmenn færa sig í aukana

Uppreisnarmenn í Írak hafa fært sig upp á skaftið undanfarna daga. Síðan tilkynnt var um í síðustu viku að ný ríkisstjórn hefði verið mynduð hafa að minnsta kosti 130 manns týnt lífi í árásum. Í gærmorgun sprakk öflug bílsprengja í verslunarhverfi í Bagdad og fórust sex manns í tilræðinu en sjö slösuðust alvarlega. Um svipað leyti létust þrír Írakar í sprengingu við eftirlitsstöð lögreglu í öðru hverfi borgarinnar. Á sunnudaginn fórust í það minnsta 36 landsmenn í árásum víðsvegar um landið, þar af féllu 25 þegar sjúkrabíl hlöðnum sprengiefnum var ekið inn í líkfylgd í borginni Tal Afar. Talið er að súnníar sem eru ósáttir við sinn hlut í stjórn landsins standi á bak við flestar árásirnar. Á sama tíma hafa hersveitir handtekið fjölda meintra uppreisnarmanna, 84 hafa verið gómaðir í Bagdad síðustu tvo daga og 52 nærri Diyarah. Talsmaður Ibrahim al-Jaafari forsætisráðherra sagði í gær að búið væri að fylla sex af þeim sjö ráðherraembættum sem ekki náðist samkomulag um í síðustu viku. Þó á eftir að skipa í hið viðkvæma embætti varnarmálaráðherra en fastlega er búist við að það komi í hlut súnnía.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×