Erlent

Kosið í Afganistan í haust

Fyrstu þingkosningarnar sem fram fara í Afganistan frá því að talibanastjórninni þar var steypt fyrir þremur og hálfu ári verða haldnar 18. september næstkomandi. Þetta tilkynnti kjörstjórnin í gær. Kosningarnar eru mikilvægur áfangi í átt að lýðræði og stöðugleika í landinu eftir aldarfjórðungs upplausn og borgarastríð. Með þingkosningum er stefnt að því að ljúka því stjórnskipunarlega umbótaferli sem ákveðið var á ráðstefnu í Bonn í Þýskalandi eftir að bandarískar hersveitir í bandalagi við innanlandsandstæðinga talibana hröktu þá frá völdum síðla árs 2001. Afganar settu sér nýja stjórnarskrá í janúar í fyrra og héldu forsetakosningar í október, en öryggismál og skipulagsvandamál hafa valdið töfum á framhaldi umbótaferlisins. Það hefur aftur ýtt undir óánægju heimamanna með forsetann Hamid Karzai, sem nýtur stuðnings setuliðs Bandaríkjamanna og bandamanna þeirra.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×