Erlent

Vill að leiðtogar semji sjálfir

Condoleezza Rice, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, ætlar ekki að sitja leiðtogafund Sharons og Abbas á þriðjudag þótt hún sé nú í heimsókn fyrir botni Miðjarðarhafs. Rice segist kjósa að leiðtogarnir semji sín á milli sjálfir án þess að erlendir leiðtogar eða embættismenn sinni hlutverki sáttasemjara. Rice hefur farið víða í sinni fyrstu utanlandsreisu síðan hún tók við embætti utanríkisráðherra. Bretland, Þýskaland, Frakkland, Pólland í gær, Tyrkland í dag, Ísrael nú síðdegis, Palestína á morgun. Hún hitti Ariel Sharon í dag og á morgun situr hún fund með Mahmoud Abbas, nýkjörnum forseta Palestínu. Þessi ferð Rice og fundur hennar með Abbas er skýrt merki um þá breytingu sem orðið hefur á samskiptum Bandaríkjastjórnar og yfirvalda í Palestínu eftir dauða Jassirs Arafats. Bandaríkjastjórn vildi undir það síðasta ekkert hafa með Arafat að segja og sagði hann beinlínis standa í vegi fyrir friði. Bandarísk yfirvöld hafa verið sökuð um afskiptaleysi í málefnum Ísraels og Palestínu. Með endurkjöri Bush í forsetaembættið hét Bandaríkjastjórn því að beina sjónum sínum í auknum mæli í þessa átt og má líta á heimsókn Rice sem upphaf þess. Rice lýsti því yfir í dag að hún kysi að fara milliveg virkra afskipta og afskiptaleysis. Þannig kysi hún helst, væri slíkt möguleiki, að hafa engin bein afskipti af friðarumleitunum Sharons og Abbas og í því ljósi ætlar hún ekki að sitja langþráðan leiðtogafund þeirra á þriðjudag. Það er ljóst að hlutirnir mjakast nú hægt í friðarátt fyrir botni Miðjarðarhafs. Bjartsýni er farin að ráða ríkjum og báðir aðilar hafa sýnt friðarvilja sinn í verki með ýmsum tilslökunum. Ísraelsstjórn hefur m.a. heitið því að láta allt að 900 palestínska fanga lausa úr haldi. Fangamálið er sérstakt hitamál fyrir Palestínumenn, en alls átta þúsund Palestínumenn sitja í ísraelskum fangelsum og þess er krafist að þeir verði allir látnir lausir.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×