Sport

Ísland enn í 95. sæti FIFA-listans

Íslenska landsliðið í knattspyrnu heldur kyrru fyrir í 95. sæti styrkleikalista FIFA sem var gefinn út í gær. Íslenska landsliðið tapaði 0-4 fyrir Króatíu og gerði markalaust jafntefli í vináttulandsleik gegn Ítalíu á tímabilinu. Íslenska landsliðið hefur ekki hækkað sig á listanum í heila ellefu mánuði eða síðan liðið komst upp í 56. sæti listans í maí 2004. Það hefur ekki hjálpað til að aðeins einn af síðustu fjórtán landsleikjum hefur unnist. Af öðrum þjóðum á listanum vekur framganga Tékka mesta athygli en þeir komust upp fyrir Frakka og Argentínumenn alla leið upp í 2. sætið en Frakkar hafa fallið niður tvö sæti og niður í 4.sæti listans. Brasilíumenn eru sem fyrr á toppnum en nágrannar þeirra frá Argentínu eru komnir upp í 3.sætið. Tékkar hafa aldrei verið ofar á listanum. Holland og England hækkuðu sig bæði um tvö sæti og fóru upp fyrir Spán og Mexíkó. Sigrar Króata á Möltubúum (3-0) og Íslendingum senda þá upp um þrjú sæti upp í það 21. en Svíar, sem eru á toppnum í okkar riðli, sitja rólegir í 13. sætinu. Af hinum þjóðunum í okkar riðli er það að frétta að Búlgarir falla um eitt sæti niður í 40. sæti, Ungverjar sitja kyrrir í 69. sætinu og Möltubúar eru sem fyrr í 137. sæti listans.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×