Erlent

Landamæri Kasmír opnuð

Þrátt fyrir spennuna milli Indlands og Pakistans, og hryðjuverkaárásirnar í gær, tókust samningar um að opna landamæri ríkjanna í Kasmír til að hleypa þar neyðarbirgðum í gegn. Það auðveldar hjálparstarfið en dugir þó hvergi nærri til.

Þúsundir munu deyja af úr sjúkdómum, úr niðurgangi og saklausum sárum sem sýking berst í berist ekki hjálp þegar í stað. Þetta er skoðun Ann Veneman, yfirmanns barnahjálpar Sameinuðu þjóðanna, sem er að kynna sér aðstæður í Kasmír.

Ann segir hættuna stigmagnast dag frá degi enda kólni nú hratt á nóttinni og ef hjálpin berist ekki fyrir þann tíma að vetur skelli á sé hún þess fullviss að lífi fjölda fólks sé ógnað.

Í dag opnuðu svo Pakistanar og Indverjar landamæri sín í Kasmír þannig að hægt væri að flytja neyðargögn þangað með auðveldari hætti en verið hefur.

Rashid Khalikov, yfirmaður Mannúðarstarfs SÞ, segist fagna ákvörðuninni - enda sé lykilatriði að hægt sé að koma hjálp á svæðið sem er mjög erfitt yfirferðar.

Farartæki mega þó ekki fara um svæðið heldur verður að bera allt yfir landamærin. Talsmenn Sameinuðu þjóðanna eru kátir en segja þetta ekki duga: þörf sé á átaki til að koma í veg fyrir meira manntjón, en ekki færri en fimmtíu og sex þúsund fórust í skjálftanum þann áttunda þessa mánaðar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×