Erlent

Mannfall eykst dag frá degi

Mannfallið í Írak eykst dag frá degi. Bandarísk yfirvöld hafa í fyrsta sinn gefið út eigið mat á fjölda þeirra Íraka sem fallið hafa í árásum. Það segir sína sögu að tölur þeirra og annarra eru mismunandi, svo að skeikar þúsundum.

Götur Bagdad í dag: blóði drifinn vettvangur skotárásar uppreisnar- og hryðjuverkamanna. Í þetta skiptið var það viðskiptaráðherra landsins sem særðist og líkamsverðir sem fórust, en oft eru það óbreyttir borgarar sem týna lífi í svona árásum, fólk sem á bara leið hjá og er óheppið. Talsmenn Bandaríkjahers segja átta af tíu árásum í landinu beinast gegn hersetuliðinu, en átta af tíu fórnarlömbum eru óbreyttir Írakar.

Í skýrslu varnarmálaráðuneytis Bandaríkjanna til þingsins, sem greint var frá í dag, kemur fram að tuttugu og sex þúsund Írakar hafa verið drepnir eða særðir í árásum uppreisnar- og hryðjuverkamanna í Írak frá því í byrjun árs 2004. Ástandið fer versnandi: mannfallið jókst úr tuttugu og sex á dag á fyrsta ársfjórðungi 2004 í sextíu og fjóra undanfarna mánuði. Og þetta nær einungis yfir þá sem falla í aðgerðum uppreisnar- og hryðjuverkamanna, en ekki þá sem falla í aðgerðum hersins.

Af tuttugu og fimm þúsund níu hundruð og tveimur fórnarlömbum segja sérfræðingar Iraq Body Count, samtaka sem reyna að fylgjast með mannfallinu í landinu, að þriðjungur hafi týnt lífi. Það þýddi rétt tæplega sexþúsund og fimm hundruð fallnir, sem er töluvert lægri tala en Iraq Body Count hefur og byggir á fregnum fjölmiðla. Talsmaður Human Rights Watch segir ennfremur í viðtali við New York Times að sér virðist tölur Bandaríkjahers í lægri kantinum. Samkvæmt tölum írakska innanríkisráðuneytisins féllu nærri átta þúsund og tvö hundruð óbreyttir, írakskir borgarar og lögreglumenn í árásum uppreisnar- og hryðjuverkamanna á tímabilinu ágúst 2004 til maí 2005.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×