Viðskipti innlent

KB banki vildi í búlgarska tóbakið

Björgólfur Thor Björgólfsson. Umsvifamikill fjárfestir í Búlgaríu sem fær mörg boð um samstarf við ákveðin verkefni.
Björgólfur Thor Björgólfsson. Umsvifamikill fjárfestir í Búlgaríu sem fær mörg boð um samstarf við ákveðin verkefni.

KB banki reyndi að ná saman hópi fjárfesta ásamt þýska bankanum Deutsche bank til að kaupa búlgarska tóbaksfyrirtækið Bulgar­­tabac eftir að stjórnvöld ákváðu að einkavæða það árið 2002. Leitaði KB banki meðal annars til íslenskra fjárfesta til að taka þátt í verkefninu.

Áform ríkisstjórnarinnar um sölu Bulgartabac mistókust í þessari atrennu. Í Markaðinum á miðvikudaginn kom fram að Björgólfur Thor Björgólfsson, sem hefur fjárfest mikið í Búlgaríu, hefði stefnt að því að kaupa tóbaksfyrirtækið á þessum tíma. Var fréttin byggð á úttekt búlgarska blaðsins Standart News á ferli og umsvifum Björgólfs Thors. Ásgeir Friðgeirsson, talsmaður Björgólfs Thors, segir þetta ekki rétt. Björgólfur hefði ranglega verið orðaður við þetta því væntanlegt tilboð tengdist Íslendingum.

Fréttin í Markaðinum, sem byggðist á úttekt Standart News, hefði því verið röng hvað þetta varði. Ásgeir segir Björgólf Thor hafa leitt þrjú kauptilboð í Búlgaríu. Fyrst í Balcanpharma árið 1999, í búlgarska landssímann BTC árið 2003 og í bankann EIBank á þessu ári. Þau hafi öll tekist.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×